Bækur

Þóra Biskups - kápaÞóra biskups og raunir íslenskrar embættismannastéttar (2010)

Ævisaga Þóru Pétursdóttur (1847-1917) biskups yfir Íslandi og eiginkonu hans Sigríðar Bogadóttur Benediktssonar fræðimanns á Staðarfelli í Dölum. Þóra var eiginkona Þorvaldar Thoroddsens náttúrufræðings en hennar hefur einkum verið minnst í sögunni fyrir myndlist og kennslu á því sviði. Í bókinni er hins vegar lögð áhersla á sögu Þóru sem bréfritarar, tungumál og tjáningu hennar sem sjónarhorn á samfélagsþróun og líf íslenskra embættismannastéttar. Bókin byggir á rannsókn á stórum handritasöfnum sem varðveitt eru hér á landi og í Konungsbókhlöðu í Kaupmannahöfn.

Þóra biskups var tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðirita, Fjöruverðlauna, Viðkenningar Hagþenkis, og Verðlauna íslenskra bóksala.

UMSAGNIR

★★★★
„Þessa sögu segir Sigrún af miklu innsæi og hinar drjúgu heimildir gera henni kleift að nálgast persónu Þóru og samferðamanna hennar án þess að taka sér skáldaleyfi. Hún hefur gott auga fyrir hinu forvitnilega og dregur oft fram smáatriði sem hafa víða skírskotun. Þótt rúm öld sé liðin frá þeim atburðum, sem lýst er í bókinni, virðist Þóra standa okkur mun nær í tíma; oft gáski í skrifum hennar … mun meira en ævisaga … [Sigrún] gerir hinu hversdagslega – áhyggjum af kjólum og vangaveltum um karlmenn – ekki síður hátt undir höfði en hinum örlagaríkari þáttum. Fyrir vikið verður sagan fyllri og blæbrigðaríkari …“
Karl Blöndal / MORGUNBLAÐIÐ

„… í bókinni dregur Sigrún upp mjög skemmtilega mynd af þeim parti lífsins í Reykjavík (og Kaupmannahöfn) sem ekki er oft að finna í sögulegum yfirlitsritum eða ævisögum. Þetta er eins og að rekast á stór stykki úr púsluspili fortíðinnar sem við höfum hingað til hirt lítið um. Og eiginlega er ánægja Sigrúnar af því að skrifa ein ánægjulegasta reynslan af því að lesa þessa bók! Hún er skrifuð af ísmeygilegri gleði, einhvern veginn.“
Illugi Jökulsson

„Frábær bók. Heldur spennu og styrk alveg til enda. Frásögnin er hröð, fjörleg, svolítið gamansöm án þess að reyna nokkuð á sig til að vera fyndin. Fræðilega er líka veruleg nýjung að þessari bók. Þar birtist fágæt mynd af tilveru ógiftrar stúlku í borgarastétt.“
Gunnar Karlsson, prófessor emeritus við Háskóla Íslands

„Ævisaga Þóru er merkileg … ber bókin því vitni að hún var skemmtileg og lífsglöð kona þótt hún mætti, eins og allir menn þessa tíma, þola ótímabær andlát sinna nánustu, veikindi, fjárhagslega erfiðleika allt í kringum sig.“
Páll Baldvin Baldvinsson / FRÉTTATÍMINN

„Ef það er einhver bók sem þið viljið lesa um þessi jól þá er það þessi bók … óstjórnlega skemmtileg og svo áhugaverð að ég hef ekki getað hætt að hugsa um hana … hvet alla til að lesa … “
Skorningar / RÚV

„Hér er ekkert fjasað eða fabúlerað út í loftið, hver einasta fullyrðing er studd með tilvísun, en samt er frásögnin lifandi og áreynslulaus. Ýmsir þræðir eru raktir út frá meginfrásögninni … afdrif aukapersóna eða manna sem koma við sögu á einhverju stigi málsins eru gjarna rakin stuttlega en skilmerkilega … Þetta er mjög smekklega gert og síst til þess fallið að flækja málin. Þessi innskot bera fyrst og fremst vott um frásagnargleði, fræðsluhvöt og það sem virðist vera ástríða höfundar fyrir efninu.“
Hjalti Snær Ægisson / Víðsjá, RÚV

„Sigrún beitir vandasamri aðferð sem gengur alveg upp. Hún heldur bókinni knappri og nálgast tilfinningaþrungin atriði af hiklausri smekkvísi. Verk unnið af óvenjulegu öryggi, bæði nákvæmt um efnisatriði og skýrt í framsetningu. Vönduð fræðimennska.“
Helgi Skúli Kjartansson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands

„Mjög hrifin … fallega og smekklega dregin upp góð og skýr mynd af Reykjavík … og Þóru … mjög áhrifamikil mynd af fjölskyldunni … mjög læsileg … höfðar til stórs lesendahóps … tilgerðarlaus.“
Kolbrún Bergþórsdóttir / KILJAN

„Bókin er bráðskemmtileg aflestrar. Sigrún er skemmtilegur stílisti með gott auga fyrir skondnum hliðum söguefnisins …”
Friðrika Benónýsdóttir / FRÉTTABLAÐIÐ

„…myndin sem smátt og smátt kemur í ljós er algjörlega einstæð … merkilegt verk og á eftir að standa … einstakt verk um íslenska konu frá þessum tíma … stórmerkilegt innlegg í frumsögu íslenskrar borgarastéttar.“
Sigurður G. Tómasson / ÍNN

„Sigrún býr til sögumannsrödd sem ég hefði fyrirfram haldið að sagnfræðingar gætu ekki búið til … hið víðara samhengi sögunnar leynist undir yfirborðinu sem einskonar samræðuviðmælandi“
Viðar Hreinsson rithöfundur


Sigrún og Friðgeir - ferðasagaSigrún og Friðgeir. Ferðasaga.

Í bókinni er sögð saga hjónanna Sigrúnar Briem og Friðgeirs Ólasonar sem héldu haustið 1940 héldu til Bandaríkjanna í sérnám í læknisfræði. Eftir fjögurra ára vist þar og í Kanada snúa þau aftur heim til Íslands ásamt þremur ungum börnum sínum. Þegar skip þeirra, Goðafoss, átti aðeins um tveggja stunda siglingu í íslenska höfn var skipið skotið niður af þýskum kafbáti og sökkt.

Bókin var tilnefnd til Viðurkenningar Hagþenkis, Menningarverðlauna Dv í flokki fræðibókmennta og í flokki fagurbókmennta. Hún hlaut Verðlaun íslenskra bóksala í flokki ævisagna.

UMSAGNIR

★★★★
Árni Matthíasson / MORGUNBLAÐIÐ

★★★★
„Sigrún er listagóður penni og þrátt fyrir að fylgja ströngum vinnureglum sagnfræðinnar tekst henni að skapa sögu sem tekur flestum skáldsögum fram hvað varðar áhugaverðar persónur og spennandi framvindu. Lokakaflinn sem lýsir þeim fimm mínútum sem það tekur Goðafoss að sökkva er skrifaður af slíkri tilfinningu og innsæi að hárin bókstaflega rísa á höfði lesanda og tárin trilla. Gjörsamlega mögnuð upplifun … Fantavel skrifuð og áhugaverð saga hjóna sem hlutu grimm örlög. Magnaðri lesning en flestar skáldsögur.“
Friðrika Benónýsdóttir / FRÉTTABLAÐIÐ

„Sigrún Pálsdóttir sýnir, í þessari bók og bókinni Þóra biskups og raunir íslenskrar embættismannastéttar, að hún hefur einstaklega gott vald á því að segja sögu einstaklinga og setja í sögulegt samhengi, á aðgengilegan og eftirminnilegan hátt … Lagni hennar við að draga upp áhrifamiklar myndir og endurskapa einstaka augnablik í texta sínum koma best í ljós í lokakaflanum, sem er, eins og öll bókin, knappur, hnitmiðaður og firnasterkur í látleysi sínu. Þar verður sagnfræðin að list.“
Auður Aðalsteinsdóttir /SPÁSSÍAN

„Sigrún og Friðgeir – ferðasaga eftir Sigrúnu Pálsdóttur er afar eftirminnileg
og vel sögð saga um fjölskyldu sem virðist eiga framtíðina fyrir sér en óblíð
örlög ætla annað.“
Kolbrún Bergþórsdóttir / MORGUNBLAÐIÐ

„Bókin er listaverk í efnistökum og stíl … Höfundurinn fellur aldrei í þá freistni að yfirdrífa, ýkja né heldur að velta sér upp úr örlögum fólks. Sem er þó sannarlega oft gert í bókum af miklu minna tilefni … Hér er vandaður rithöfundur á ferð. En líka vandaður sagnfræðingur … Bókin ætti auðvitað að vera metsölubók ævisagna að minnsta kosti … Frábær bók. Bestu þakkir.“
Svavar Gestsson

„Mannleg og hlý saga af mjög grimmum örlögum. Sigrún býr yfir einhverri óskaplegri næmni, bæði sem stílisti og hvernig hún vinnur úr hlutunum … síðasti kaflinn er þannig að flestir hljóta að komast við ef þeir beinlínis gráta ekki vegna þess að henni hefur tekist að byggja upp svo sterka mynd af þessu fólki og maður lifir sig svo inn í þetta … Bóksalar völdu þetta bestu ævisögu ársins … ég er hjartanlega sammála þeim þarna … Ég er verulega hrifin.“
Kolbrún Bergþórsdóttir / KILJAN

„Mér finnst þetta verulega flott bók og lokakaflinn verður þeim mun átakanlegri sem kaflarnir á undan eru betri.“
Sigurður G. Valgeirsson / KILJAN

„Ævisaga ársins“
Kolbrún Bergþórsdóttir / MORGUNBLAÐIÐ

„Sem höfundur hefur hún einstakt lag á því að greina hvernig þræðir þjóðfélagsgerðarinnar og sögunnar (í öllum skilningi þess orðs) liggja saman. Ekki einvörðungu út frá einstaklingnum, eða forsendum fjölskyldumyndarinnar, heldur líka út frá þeim víðu skilgreiningum er ganga þvert á mæri landa, menningar og jafnvel tímans … Sigrún notar í raun efnivið sem henni hefur borist í hendur um eina fjölskyldu og mótar úr honum dæmisögu með ákaflega víðri skírskotun. Þar er allt undir, stórt sem smátt; persónulegur metnaður, samheldni, fjölskyldumyndin, hugmyndir um jafnrétti og gildi einstaklingsins fyrir samfélagið … Þar fyrir utan skrifar Sigrún skemmtilegan stíl sem flæðir áreynslulaust á milli staðreynda úr viðurkenndum heimildum og hennar eigin hugrenninga. Hún er ekki einungis meðvituð um nauðsyn þess að miðla umfram það efni sem heimildir gefa tilefni til, heldur einnig um það hvenær orð eru einskis megnug.“
Fríða Björk Ingvarsdóttir / VÍÐSJÁ

„Nákvæm fræðileg vinnubrögð, ásamt úthugsaðri og látlausri framsetningu, gera þetta að einstöku verki á mörkum ævisögu og sagnfræði.“
Viðurkenningaráð Hagþenkis


Kompa - kápuhönnunKompa

Fræðimaður, ung kona, verður fyrir smávægilegri truflun inni á handritasafni við rannsókn á 365 ára gamalli dagbók. Afleiðingarnar eru afdrifaríkar en koma þó ekki í ljós fyrir en sex árum síðar þegar konan áttar sig á að rannsóknartilgáta hennar hefur í öll þessi ár verið byggð á röngum forsendum, og að ritgerðin, heilar 600 síður, er að öllum líkindum þvættingur frá upphafi til enda. Í örvæntingu sinni grípur hún til þess eina ráðs sem virðist geta bjargað henni úr skelfilegum aðstæðum, en verknaðurinn eykur bara á hremmingar hennar og áfallið í kjölfar þessa alls verður til þess að gömul veikindi taka sig upp. Buguð og í fræðilegri sjálfheldu frestar hún námslokum og fylgir eiginmanni sínum heim til Íslands. Þar burðast hún með leyndarmál sitt og laskaða sjálfsmynd gagnvart fjölskyldu og vinum, og tekst á við afleiðingar veikinda sinna, ofskynjanir, sem virðast þó að lokum ætla að opna henni leið út úr ógöngunum.

Kompa er skáldsaga um uppruna sögulegra heimilda og tilviljunarkennda varðveislu þeirra.

Bókin var tilnefnd til Fjöruverðlauna.

UMSAGNIR

Súrrandi brilljant út í gegn. Gengur fullkomlega upp.
Halla Oddný Magnúsdóttir, umsjónarmaður Menningar/ (RUV)

★★★★
Magnþrungin saga
Júlía Margrét Einarsdóttir/ MORGUNBLAÐIÐ

★★★★
Líkt og kúbískt listaverk
Jóhanna María Einarsdóttir/ DV

Listavel gert … hefur afburðatök á því sem hún er að gera
Steinunn Inga Óttarsdóttir/ KVENNABLAÐIÐ

Þetta er vægast sagt spennandi bók!
Jórunn Sigurðardóttir/ Orð um bækur (RUV)

Draumkennd framvindan dregur mann inn í verkið,
forvitnin um heimildina knýr lesturinn áfram.
Gunnþórunn Guðmundsdóttir/ HUGRÁS

Vel skrifuð. Mjög vel hugsuð. Mér finnst hún býsna góð.
Kolbrún Bergþórsdóttir/ KILJAN

Vakti þar til ég var búinn með þessa klukkan 2 í nótt.
Hún er góð. Mjög góð.
Stefán Pálsson, sagnfræðingur

Gunnhugmyndin að verkinu snjöll. Mjög pælt verk.
Sigurður Valgeirsson/ KILJAN

Sem fyrsta skáldsaga sagnfræðings þá segi ég bara: geri aðrir betur
Jóhann Helgi Heiðdal/ STARAFUGL

Uppfull af snilldarlegum kontrapunkti forms og inntaks
Halla Oddný Magnúsdóttir, umsjónarmaður Menningar/ (RUV)

Afar eftirminnileg lestrarupplifun og þrátt fyrir alvarlegan undirtón er í honum hárfínn lágstemmdur húmor
Júlía Margrét Einarsdóttir/ MORGUNBLAÐIÐ